Hamar fann ekki körfuna í lokin

Kvennalið Hamars beið lægri hlut þegar Valur kom í heimsókn í Frystikistuna í Hveragerði í Domino's-deildinni í körfubolta í kvöld.

Hamar skoraði fyrstu fjögur stigin en Valur svaraði með 5-14 áhlaupi og leiddi að loknum 1. leikhluta, 14-18. Hvergerðingar komust aftur yfir með því að skora fyrstu fimm stigin í 2. leikhluta. Leikhlutinn var jafn en Hamar skrefinu á undan.

Guðbjörg Sverrisdóttir lokaði hins vegar 2. leikhluta með þriggja stiga flautukörfu og tryggði Val forystuna í hálfleik, 33-35.

Gestirnir höfðu frumkvæðið í síðari hálfleik en munurinn var ekki mikill lengst af. Staðan eftir 3. leikhluta var 47-52 en Hamar náði að minnka muninn niður í fjögur stig um miðjan 4. leikhluta, 52-56.

Valur spilaði hins vegar hörkuvörn á síðustu fimm mínútum og Hvergerðingum gekk ekkert að finna körfuna. Hamar skoraði aðeins tvö stig á þessum kafla á móti níu stigum Vals sem sigraði að lokum, 54-65.

Sydnei Moss var stigahæst hjá Hamri í sínum fyrsta leik með 18 stig og 10 fráköst. Salbjörg Sævarsdóttir og Þórunn Bjarnadóttir skoruðu 11 stig, Sóley Guðgeirsdóttir 8 auk 10 frákasta, Kristrún Rut Antonsdóttir 4 og Heiða B. Valdimarsdóttir 2.

Hamar er sem fyrr á botni deildarinnar með 2 stig eins og KR og Breiðablik. Hamar heimsækir einmitt Blika í næstu umferð á laugardaginn.

Fyrri greinNemendur fá skólagjöld endurgreidd
Næsta greinLágmarksútsvar og skuldlaust sveitarfélag