Hamar fær annað tækifæri

Hamar á ennþá möguleika á að ná sæti í 32-liða úrslitum Valitor-bikars karla í knattspyrnu eftir að Léttir tapaði leik í 1. umferð bikarsins vegna kærumáls.

KH og Léttir mættust í 1. umferð bikarsins og þar fór Léttir með sigur af hólmi. KH hefur nú verið úrskurðaður sigur í leiknum þar sem Léttir tefldi fram ólöglegum leikmanni.

Léttir hélt áfram í keppninni og lagði Hamar 4-1 en nú hefur sá leikur verið látinn niður falla og Hamar og KH munu leika um sæti Léttis í 32-liða úrslitunum á miðvikudag kl. 20 að Hlíðarenda.

Fari Hamar með sigur af hólmi eiga þeir góða möguleika á að komast alla leið í 16-liða úrslit því sigurliðið úr leik KH og Hamars mætir 3. deildarliði KFS í 32-liða úrslitum.