Hamar ekki í vandræðum með Reyni

Hamar vann góðan sigur á Reyni Sandgerði í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Eftir sannfærandi seinni hálfleik voru lokatölur í Hveragerði 109-88.

Hvergerðingar voru nokkra stund að hrista Reynismenn af sér. Heimamenn skoruðu þó fyrstu níu stigin en Reynir jafnaði 21-21 og komst síðan yfir. Hamar kláraði þó leikhlutann með 6-2 kafla og leiddi 26-23 að honum loknum. Leikurinn var í járnum í 2. leikhluta en Hamar náði 14-4 áhlaupi undir lokin og leiddi 52-44 í hálfleik.

Lífið var aðeins léttara fyrir Hamar í seinni hálfleik og í 3. leikhluta jókst forskotið jafnt og þétt og staðan var 81-63 þegar leikhlutanum lauk. Hamarsmenn héldu gestunum svo í hæfilegri fjarlægð í 4. leikhluta og unnu sanngjarnan sigur.

Örn Sigurðarson var stigahæstur hjá Hamri með 23 stig, Jerry Hollis skoraði 22 og tók 16 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði 19 og Ragnar Á. Nathanaelsson 14 auk þess sem hann tók 16 fráköst og varði 5 skot. Oddur Ólafsson skoraði 11 stig og sendi 5 stoðsendingar.

Fyrri greinÞægilegur sigur eftir slaka byrjun
Næsta greinArionbanki tekur að sér rekstur og stýringu