Hamar deildarmeistari í 1. deild kvenna

Hamarskonur tryggðu sér í kvöld deildarmeistaratitilinn í 1. deild kvenna í körfubolta eftir öruggan sigur á Stjörnunni, 79-56, í uppgjöri toppliðanna.

Hamar hefur haft yfirburði í deildinni í allan vetur og aðeins tapað einum leik. Deildarmeistaratitillinn dugir þó Hvergerðingum ekki til þess að komast upp í efstu deild því að liðið mætir Stjörnunni í einvígi um sæti í Domino‘s-deildinni.

Leikurinn í kvöld var jafn í 1. leikhluta en Hamar stakk af í 2. leikhluta og gerði svo endanlega út um leikinn með frábærum 3. leikhluta. Staðan í hálfleik var 32-22.

Íris Ásgeirsdóttir var stigahæst hjá Hamri í kvöld með 22 stig, Marín Laufey Davíðsdóttir skoraði 16, Álfhildur Þorsteinsdóttir 14, Jenný Harðardóttir og Regína Ösp Guðmundsdóttir skoruðu báðar 9 stig, Katrín Eik Össurardóttir skoraði 8 stig auk þess sem hún tók 12 fráköst og Dagný Lísa Davíðsdóttir skoraði 1 stig.

Úrslitaeinvígið hefst strax eftir páska en Hamar þarf tvo sigra gegn Stjörnunni til að komast upp um deild.

hamar_lidsmynddeildarm1deild2013slo_793171466.jpg
1. deildarmeistarar Hamars 2013 ásamt Hallgrími Brynjólfssyni, þjálfara. sunnlenska.is/Sævar Logi

Fyrri greinDæmd fyrir manndráp af gáleysi
Næsta greinDómnefndin valdi Aragrúa í úrslit