Hamar byrjar af krafti

Jose Medina var sterkur í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Keppni í 1. deild karla í körfubolta hófst í kvöld og þar höfðu Hamarsmenn betur gegn Hrunamönnum í Suðurlandsslag á Flúðum.

Hamar hafði undirtökin í leiknum allan tímann, þeir leiddu 17-26 eftir 1. leikhluta og staðan í hálfleik var 39-59. Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta en í þeim fjórða svöruðu Hrunamenn loksins fyrir sig og náðu að minnka muninn niður í 18 stig. Lokatölur urðu 87-105.

Jose Medina fór á kostum í liði Hamars, skoraði 33 stig, sendi 8 stoðsendingar og tók 6 fráköst. Ragnar Nathanaelsson lék sömuleiðis vel í sínum fysta leik í langan tíma með uppeldisfélaginu, skoraði 29 stig og tók 13 fráköst, Mirza Sarajlija skoraði 19 stig og tók 6 fráköst og Björn Ásgeir Ásgeirsson skoraði 17 stig og tók 5 fráköst. Hjá Hrunamönnum var Ahmad Gilbert stigahæstur með 30 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar og Samuel Burt skoraði 15 stig og tók 5 fráköst.

Í Dalhúsum í Grafarvogi voru Selfyssingar í heimsókn hjá Fjölni. Eftir jafnan 1. leikhluta skriðu Fjölnismenn framúr í 2. leikhluta og staðan var 50-41 í hálfleik. Fjölnir byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og náði öruggu forskoti, sem Selfyssingar náðu ekki að saxa niður, þrátt fyrir fín tilþrif í 4. leikhluta. Lokatölur urðu 100-89.

Gerald Robinson var bestur í liði Selfoss með 34 stig og 11 fráköst. Ísak Júlíus Perdue skoraði 17 stig og sendi 6 stoðsendingar og Srdan Stojanovic skoraði 15 stig og tók 5 fráköst.

Fyrri greinStofna starfshóp um uppbyggingu sundlaugarmannvirkja
Næsta greinBrúargólfið steypt í nóvember