Hamar byrjar á sigri – Selfyssingar töpuðu

Franck Kamgain. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og Selfoss mættu til leiks í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hamar byrjaði á sigri gegn KV á meðan Selfyssingar töpuðu gegn Breiðabliki á útivelli.

Það tók Hamarsmenn dálitla stund að ná tökum á leiknum í kvöld. KV leiddi eftir 1. leikhluta en Hamar komst yfir í 2. leikhluta og staðan var 38-45 í hálfleik. KV lét áfram finna fyrir sér í 3. leikhluta en Hvergerðingar voru sterkari á lokasprettinum og lönduðu 69-78 sigri. Franck Kamgain raðaði niður stigum fyrir Hamar en hann skoraði 36 stig í kvöld.

Selfyssingar máttu sín lítils gegn sterku liði Breiðabliks í kvöld. Blikar leiddu allan leikinn, staðan var 48-30 í hálfleik og Blikar juku forskotið enn frekar í seinni hálfleiknum. Lokatölur urðu 87-58. Steven Lyles var atkvæðamestur hjá Selfyssingum með 16 stig.

Fyrstu heimaleikir liðanna eru um næstu helgi. Selfoss fær Snæfell í heimsókn á fimmtudagskvöld og Haukar mæta í Hveragerði á föstudagskvöld.

KV-Hamar 69-78 (23-19, 15-26, 20-18, 11-15)
Tölfræði Hamars: Franck Kamgain 36/7 fráköst/6 stolnir, Lúkas Aron Stefánsson 15/7 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 15, Ísak Sigurðarson 7/4 fráköst, Birkir Máni Daðason 4, Atli Rafn Róbertsson 1/7 fráköst.

Breiðablik-Selfoss 87-58 (20-15, 28-15, 22-13, 17-15)
Tölfræði Selfoss: Steven Lyles 16/5 fráköst, Collin Pryor 8/6 fráköst, Tristan Máni Morthens 8, Ari Hrannar Bjarmason 7/5 fráköst, Pétur Hartmann Jóhannsson 6, Halldór Halldórsson 3, Fróði Larsen Bentsson 3, Kristijan Vladovic 3, Fjölnir Morthens 2, Óðinn Freyr Árnason 2.

Fyrri greinHef sungið einsöng fyrir forseta Íslands
Næsta greinAllt á suðupunkti í Hveragerði