
Hamar vann öruggan sigur á Höfnum í lokaumferð 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld og bjargaði sér þar með frá falli úr deildinni. Á sama tíma vann Árborg KFS, og þannig féll KFS niður í 5. deild.
Það var allt undir hjá Hamri og Höfnum í Reykjaneshöllinni í kvöld enda bæði lið í fallhættu. Hvergerðingar komust yfir strax á 6. mínútu með marki frá Hamdja Kamara. Tomas Alassia tvöfaldaði forskotið á 35. mínútu og staðan var 0-2 í hálfleik.
Guido Rancez innsiglaði svo 0-3 sigur Hamars um miðjan seinni hálfleikinn og Hvergerðingar fögnuðu vel í lokin. Þeir náðu að bjarga sér frá falli með sannfærandi hætti með því að vinna síðustu fimm leiki sumarsins eftir algjöra eyðimerkurgöngu framan af sumri.
Sjö marka leikur á Selfossi
Árborg hafði góð tök á leiknum gegn KFS framan af fyrri hálfleik en eftir tuttugu mínútur tók við ótrúlegur þrettán mínútna kafli þar sem liðin skiptust fimm sinnum á að skora. Hallgrímur Þórðarson kom KFS yfir en Kristinn Ásgeir Þorbergsson jafnaði fyrir Árborg fjórum mínútum síðar. Eftir tvær mínútur var KFS komið í 1-2 með marki Daníels Sigmarssonar en Magnús Arnar Hafsteinsson jafnaði jafnharðan fyrir Árborg. Aftur liðu fjórar mínútur þangað til Junior Niwamanya kom KFS í 2-3 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Leikurinn var í járnum framan af seinni hálfleiknum en um hann miðjan skoraði Árborg tvisvar. Kristinn Ásgeir jafnaði 3-3 á 68. mínútu og þremur mínútum síðar skoraði Ari Rafn Jóhansson sigurmark Árborgar. KFS sótti stíft í lokin enda hefði eitt stig dugað þeim til þess að halda sæti sínu í deildinni. Svo fór ekki og KFS féll ásamt Kríu. Þriðja árið í röð hafnaði Árborg í 3. sæti 4. deildarinnar en Hamar lauk sumrinu í 7. sæti.

