Hamar bikarmeistari HSK í körfu

Hamarsmenn tryggðu sér bikarmeistaratitil Skarphéðins í körfubolta 2011 eftir 92-64 sigur á Laugdælum í íþróttahúsinu í Hveragerði í gær.

Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega þar sem Hamarsmenn pressuðu stíft og náðu að stela nokkrum boltum og fá auðveldar körfur í framhaldinu. Laugdælir bitu þó frá sér um miðjan 1. leikhluta og skoruðu sjö stig í röð og héldu þannig í við Hamar þannig að munurinn var aðeins 4 stig að loknum 1. leikhluta, 24-20.

Annar leikhluti var nokkuð jafn og skiptust liðin á að halda forystunni. Hamar tók á sprett undir lokin og leiddi í hálfleik 40-36.

Hvergerðingar voru mun betur stemmdir í síðari hálfleik og höfðu tólf stiga forskot eftir 3. leikhluta, 63-51. Síðasti fjórðungurinn varð hins vegar aldrei spennandi þar sem Hamar jók muninn jafn og þétt og lokatölur urðu 92-64.

Ragnar Nathanaelsson bar höfuð og herðar yfir aðra Hamarsmenn í stigaskoruninni, skoraði 23 stig. Snorri Þorvaldsson skoraði 15, Bjarni Rúnar Lárusson 12 og Stefán Halldórsson 11.

Pétur Sigurðsson var stigahæstur Laugdæla með 22 stig, Bjarni Bjarnason skoraði 17, Sigurður Hafþórsson 13 og Anton Kárason 10.