Hamar aftur í deild þeirra bestu

Kvennalið Hamars mun leika í úrvalsdeildinni í körfubolta á næstu leiktíð eftir eins árs fjarveru. Hamar vann öruggan sigur á Stjörnunni, 73-59, í oddaleik í Hveragerði í kvöld.

Það blés reyndar ekki byrlega í upphafi, Stjarnan var skrefinu á undan í 1. leikhluta og leiddi að honum loknum, 10-12.

Hamar fór hins vegar langt með að klára leikinn í upphafi 2. leikhluta þegar þær náðu 20-2 áhlaupi og breyttu stöðunni í 30-14. Íris Ásgeirsdóttir var eldheit á þessum kafla og skoraði 12 af þessum 20 stigum Hamars á tveimur og hálfri mínútu. Stjarnan klóraði í bakkann undir lok fyrri hálfleiks og staðan í leikhléinu var 33-26.

Þriðji leikhluti hófst með mistökum á báða bóga en Hamar náði að auka forskotið aftur og var í vænlegri stöðu þegar síðasti fjórðungurinn hófst, 49-36. Stjarnan náði ekki að setja neina pressu á Hvergerðinga í 4. leikhluta þar sem munurinn hélst í kringum tíu stig allan tímann en 12-3 áhlaup undir lokin gerði endanlega út um leikinn.

Hamarliðið fagnaði ógurlega í leikslok og áhorfendur voru vel með á nótunum en áhorfendabekkirnir í íþróttahúsinu í Hveragerði voru nánast fullskipaðir.

Íris var stigahæst hjá Hamri með 23 stig en maður leiksins var Marín Laufey Davíðsdóttir sem kórónaði góðan vetur með frábærum leik. Marín skoraði 22 stig og tók 15 fráköst. Jenný Harðardóttir skoraði 9 stig, Bjarney Sif Ægisdóttir, Dagný Lísa Davíðsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir skoruðu allar 5 stig og Katrín Eik Össurardóttir 4.

Fyrri greinRáðherrar funduðu í Litlu kaffistofunni
Næsta grein„Við ákváðum að hafa gaman“