Hamarsmenn eru komnir aftur á topp úrvalsdeildar karla í blaki eftir 3-0 sigur á Völsungi í Hveragerði í gær.
Völsungar mættu vel stemmdir til leiks og var fyrsta hrinan jöfn og spennandi. Það leit út fyrir að Völsungar ætluðu að hafa sigur í hrinunni en dauðakippur Hamarsmanna í lokin kom þeim yfir línuna og unnu þeir hrinuna að lokum 26-24. Hamarsmenn voru þó nokkuð sprækari í annarri hrinu og unnu þeir hana nokkuð örugglega 25-17. Völsungar gáfust þó ekki upp. Í þriðju hrinu var hörkubarátta allt til loka og þurfti að lokum upphækkun til að knýja fram úrslit. Hrinan endaði 30-28 Hamri í vil og unnu þeir leikinn því 3-0.
Hamarsmenn eru eftir leikinn á toppi deildarinnar með 35 stig, með einn leik til góða á Þrótt sem er í 2. sæti með 34 stig. Í 3. sæti er svo KA menn með 31 stig en þeir eiga 2 leiki inni á Hamarsmenn.
Stigahæstur í liði Hamars var Borislav Nikolov með 14 stig en í liði Völsungs var það Þórarinn Örn Jónsson með 11 stig.

