Hamar áfram í Lengjubikarnum

Hamar lagði Tindastól 63-72 í Lengjubikar karla í körfuknattleik á Sauðárkróki í kvöld og eru Hvergerðingar komnir í 8-liða úrslit.

Hamarsmenn voru frískari í upphafi en heimamenn komu til baka í 2. leikhluta og náðu að minnka muninn í 1 stig fyrir leikhlé, 34-35. Síðari hálfleikur var í járnum allt þar til rúmar tvær mínútur voru eftir en þá juku Hamarsmenn forskotið úr tveimur stigum í níu á skömmum tíma.

Nerijus Taraškus var stigahæstur hjá Hamri með 18 stig, Svavar Páll Pálsson skoraði 16 og Darri Hilmarsson 11.

Hamar leikur gegn Keflavík í 8-liða úrslitunum og fer leikurinn fram í Reykjanesbæ á sunnudagskvöld kl. 19:15.