Hamar áfram í bikarnum – Hrunamenn buðu til veislu

Hamar lagði Álftanes í 32-liða úrslitum Powerade-bikars karla í körfubolta í gær. Hrunamenn fengu Íslandsmeistara KR í heimsókn og töpuðu stórt.

Hrunamenn nýttu tækifærið og blésu til mikillar körfuboltaveislu fyrir yngri iðkendur fyrir leik og tóku gestirnir í KR þátt í þeirri gleði sem var mjög vel heppnuð.

Leikurinn sjálfur var leikur kattarins að músinni. KR komst í 0-10 áður en Hrunamenn vöknuðu til lífsins. Heimamenn minnkuðu muninn í 10-14 en þá hertu KR-ingar sig í vörninni og leiddu 26-12 að loknum 1. leikhluta. Bæði lið spiluðu öfluga vörn í 2. leikhluta en KR-ingar voru ákveðnari og Hrunamönnum gekk illa að komast í góð skotfæri. Staðan var 47-23 í hálfleik.

Gestirnir völtuðu síðan yfir heimamenn í 3. leikhluta, pressuðu stíft og fengu auðveldar körfur í kjölfarið. Staðan var orðin 78-28 að loknum 3. leikhluta en Hrunamenn réttu úr kútnum í sókninni í 4. leikhluta og lokatölur leiksins urðu 108-46.

Hjálmur Hjálmsson var stigahæstur Hrunamanna með 11 stig, Sigurður Sigurjónsson skoraði 8, Bogi Pétur Eiríksson 7, Atli Þór Reynisson 5, Þórmundur Smári Hilmarsson og Bergþór Ingi Sigurðsson 4, Haukur Már Hilmarsson 3 og þeir Hörður Jóhannsson og Halldór Sigmar Guðmundsson skoruðu báðir 2 stig.

Hvergerðingar heimsóttu 2. deildarlið Álftaness í gær þar sem Hamar vann öruggan sigur, 64-99.

Hamarsmenn voru seinir í gang í leiknum og leiddu með 4 stigum eftir 1. leikhluta 12-16. Í 2. leikhluta keyrði Hamar upp hraðann og sóknarleikurinn gekk betur, en það kom niður á varnarleiknum. Hamar leiddi 32-44 í hálfleik en það var ekki fyrr en í síðasta fjórðungnum að Hvergerðingar náðu loksins að stinga af.

Staðan fyrir síðasta leikhlutan var 51-70 en Hamar vann að lokum 35 stiga sigur, 64-99.

Tveir nýjir leikmenn spiluðu með Hamri í leiknum, þeir Birgir Þór Sverrisson sem kom frá ÍR og Sigurður Orri Hafþórsson en hann er byrjaður aftur eftir smá hlé. Þorsteinn Gunnlaugsson spilaði hins vegar ekki í gær vegna meiðsla en vonir standa til að hann verði klár í næsta deildarleik.

Julian Nelson var stigahæstur hjá Hamri með 17 stig, Hjalti Ásberg Þorleifsson skoraði 16, Halldór Gunnar Jónsson 15 og Örn Sigurðarson 10 stig en allir tólf leikmenn liðsins komust á blað í leiknum.

Búið er að fresta leik KFÍ og Þórs Þ. en hann átti að fara fram í kvöld. Ástæða þess að leiknum var frestað er að ekki er flogið vestur vegna veðurs og búið er að aflýsa öllu flugi vestur í dag. Nýr leiktími er mánudagurinn 3. nóvember kl. 19:15.

Á mánudagskvöld tekur FSu á móti Keflavík í Iðu kl. 19:15.