Hamar áfram í bikarnum

Lið Hamars er komið í 2. umferð Borgunarbikars karla í knattspyrnu eftir 1-2 sigur á Vatnaliljum í framlengdum leik í Fagralundi í Kópavogi í dag.

Vatnaliljur komust yfir á 7. mínútu leiksins en Páll Pálmason jafnaði metin fyrir Hamar á 30. mínútu. Staðan var 1-1 í hálfleik og síðari hálfleikur var markalaus, svo að grípa þurfti til framlengingar.

Sjö mínútum fyrir leikslok leit svo sigurmarkið dagsins ljós, en það var Liam Killa sem kom knettinum í netið og tryggði Hamri sigurinn.

Hamar mætir 3. deildarliði Reynis frá Sandgerði í 2. umferðinni.