Hamar áfram í bikarnum – Þór úr leik

Hvergerðingar eru komnir í 8-liða úrslit bikarkeppni karla í körfubolta eftir 72-80 sigur á ÍA í kvöld. Þór er úr leik eftir tap gegn Keflavík.

Hamar sótti ÍA heim í kvöld og eftir jafnan fyrri hálfleik var staðan 34-36, Hvergerðingum í vil. Hamarsmenn mættu ákveðnir til seinni hálfleiks og náðu mest fjórtán stiga forskoti, 46-60. Fjórði leikhluti var spennandi, Hamar komst í 52-69, en ÍA minnkaði muninn í þrjú stig með 17-3 áhlaupi, 69-72. Hvergerðingar kláruðu hins vegar leikinn af öryggi á vítalínunni á lokamínútunni.

Þorsteinn Gunnlaugsson var stigahæstur Hvergerðinga með 23 stig og 13 fráköst. Julian Nelson átti sömuleiðis fínan leik með 20 stig og 12 fráköst. Snorri Þorvaldsson skoraði 14 stig, Örn Sigurðarson 8, Birgir Þór Sverrisson og Kristinn Ólafsson 5, Hjalti Ásberg Þorleifsson 3 og Halldór Gunnar Jónsson 2.

Þór sótti Keflavík heim í gærkvöldi og þar var leikurinn í járnum allt fram í 4. leikhluta. Staðan í hálfleik var 44-42. Þegar síðasti leikhlutinn hófst var staðan jöfn, 63-63. Keflvíkingar völtuðu hins vegar yfir Þórsara með 20-4 áhlaupi í upphafi lokafjórðungsins. Þegar fjórar mínútur voru eftir var staðan 83-69 og Þórsurum tókst ekki að svara fyrir sig á lokamínútunum.

Vincent Sanford var stigahæstur hjá Þór með 20 stig, Nemanja Sovic skoraði 16, Þorsteinn Már Ragnarsson 14, Baldur Þór Ragnarsson 12, Grétar Ingi Erlendsson 8, Emil Karel Einarsson 6 og Oddur Ólafsson 2.

Á þriðjudaginn verður dregið verður í 8-liða úrslitin og þá kemur í ljós hverjir andstæðingar Hamars verða. Með þeim í pottinum verða Fjölnir, Keflavík, KR, Skallagrímur og Tindastóll. Á morgun mætast Stjarnan og ÍR annars vegar og Valur og Snæfell hins vegar í síðustu leikjum 16-liða úrslitanna.

Fyrri greinVerður væntanlega byggt í Hagalandinu á Selfossi
Næsta greinSS týnir lambaskrokkum