Hamar á toppnum um jólin

Ljósmynd/Kristín Hálfdánardóttir

Hamarsmenn tóku á móti KA í úrvalsdeild karla í blaki í dag. Hamarsmenn voru fyrir leikinn á toppi deildarinnar með 15 stig eftir fimm leiki spilaða en Afturelding með 14 stig eftir sjö leiki. KA menn voru aftur á móti í þriðja sæti með 9 stig og jafn marga spilaða leiki og Hamar.

Hamarsmenn mættu vel stemmdir til leiks og ætluðu sér greinilega að halda toppsæti deildarinnar. Þeir unnu fyristu tvær hrinurnar örugglega 25-14 og 25-18.

KA menn sýndu aftur á móti tennurnar í þriðju hrinu og var staðan jöfn á öllum tölum upp í tólf. Eftir það skriðu Hamarsmenn framúr en náðu aldrei nema þriggja stiga forystu. Fór svo að lokum að Hamar þurfti upphækkun til að knýja fram 26-24 sigur og unnu þeir leikinn þar með 3-0.

Stigahæstir í liði Hamars voru Kristján Valdimarsson og Marcin Graza með 12 stig. Í liði KA var Miguel Matteo með 15 stig.

Hamarsmenn eiga einn leik eftir fyrir jól. Afturelding getur því ekki náð þeim að stigum og mun Hamar því sitja á kunnuglegum stað á toppi deildarinnar yfir hátíðirnar.

Fyrri greinToppliðið of stór biti
Næsta greinHamar-Þór elti allan tímann