Hamar á toppinn

Hamarsmenn eru komnir í efsta sæti 2. deildar karla í knattspyrnu eftir 3-2 sigur á Hetti í uppgjöri toppliðanna á Grýluvelli í dag.

Fyrri hálfleikur var markalaus en fjörið byrjaði fljótlega í seinni hálfleik. Höttur komst yfir á 50. mínútu en níu mínútum síðar jafnaði Einar Már Þórisson leikinn fyrir Hamar.

Helgi Guðnason kom Hamri yfir á 68. mínútu en tíu mínútum síðar jafnaði Höttur með marki úr vítaspyrnu. Á 80. mínútu var Arnþór Kristinsson rekinn af velli eftir tvö gul spjöld á þriggja mínútna kafla en manni færri náðu Hvergerðingar að knýja fram sigurmark. Haraldur Hróðmarsson skoraði það á 83. mínútu.

Þegar sjö umferðir eru eftir af deildinni er Hamar í efsta sæti með 29 stig en Höttur hefur 27 stig í 2. sæti. Þar á eftir koma fimm lið með 25-26 stig.

Fyrri greinÍslandsteppið slegið á milljón
Næsta greinRúta valt í Blautulón