Hamar A sigraði hraðmót HSK

Keppendur á Hraðmóti HSK kvenna í blaki. Ljósmynd/Aðsend

Hraðmót HSK í blaki kvenna var haldið á Hvolsvelli 26. september. Sjö lið mættu til leiks og að lokum var það lið Hamars A sem sigraði. Leikirnir voru spilaðir á tíma og voru úrslit reiknuð út frá stigaskori en ekki unnum hrinum. Alls var spilaður 21 leikur á mótinu.

Hamar A var með stigahlutfallið 2,613, í 2. sæti varð Dímon/Hekla A með stigahlutfallið 1,659 og í 3. sæti Laugdælir með 0,944. Þar á eftir komu Hrunlaug, Dímon/Hekla B, Hrunakonur og Hamar B.

Gamlar kempur á karlamóti
Hraðmót HSK í blaki karla fór fram á Flúðum 27. september og mættu tvö lið til leiks, Hamar og Laugdælir. Var spilað um tvær unnar hrinur en Hamar sigraði 2-1 í æsispennandi leik. Gamlar kempur mættu á mótið frá Hrunamönnum og voru teknar nokkrar auka hrinur og varð úr mikið fjör og er eftirvænting mikil fyrir vetrinum eftir mótaþurrð síðustu ára.

Fyrri greinRisasigur Hamars-Þórs
Næsta greinFullt út að dyrum allan daginn