Hamar A og Hrunamenn hraðmótsmeistarar

Hraðmót HSK í blaki karla og kvenna var haldið á Laugarvatni í síðastliðinni viku. Góð þátttaka var á mótinu en alls kepptu tíu kvennalið og fimm karlalið.

Konurnar hófu leik á mánudag og var spilað stíft frá hálf sex til ellefu um kvöldið. Liðunum var stillt upp í tvo riðla sem spiluðu innbyrðis og loks voru spiluð einföld úrslit á milli fyrsta sætis hvors riðils um gullið, liðin í öðru sætu spiluðu um bronsið, liðin í þriðja sæti um 5. sæti og svo koll af kolli.

Í A-riðli bar Hamar A sigur úr bítum og fékk fullt hús stiga en ungar Laugdælur og Garpur kom þar á eftir. Í B-riðli var mun meiri spenna en röð liða réðst ekki fyrr en í síðasta leiknum þegar Dímon/Hekla A og yngri Laugdælur tókust á um hvort liðið ynni riðilinn. Fór það svo að bæði liðin unnu sína hrinuna hvort og voru því með jafn mörg stig að loknum öllum leikjum.

Það þurfti því að skoða stigahlutfallið hjá liðunum til þess að dæma um röðina og höfðu mótshaldarar vart áður séð eins jafna stöðu. Í stuttu máli vann Dímon-Hekla A riðilinn með 0,007 stiga betra hlutfall. Þess má líka geta að skoða þurfti stigahlutfallið milli Hvatar og Hrunakvenna B um hvort liðið hreppti 3. sæti riðilsins.

Úrslitaviðureignin var því á milli Dímon/Heklu A og Hamars A og gerði Hamar A sér lítið fyrir og vann nokkuð sannfærandi 2-0 sigur og eru því Hraðmótsmeistarar HSK í blaki kvenna árið 2013. Í öðru sæti var Dímon/Hekla A og þriðja sætið hrepptu svo yngri Laugdælur eftir að hafa unnið ungar (en reyndari) Laugdælur. Lokaröð liða má sjá hér að neðan.

Hrunamenn misstu aldrei fókus
Karlarnir mættu á fimmtudagskvöld og spiluðu í einum riðli allir við alla. Fyrirfram var búist við því að Hamar og Hrunamenn myndu bítast um sigurinn eins og oft áður, en það var þó alls ekki gefið. Dímon mætti með unga og spræka stráka sem stríddu t.d. Hamri þónokkuð og voru nærri búnir að taka af þeim hrinu. Selfyssingar létu líka skína í tennurnar og voru nær því búnir að taka hrinu af Hrunamönnum og náðu einni af Hamri. Það var því möguleiki á einhverri uppstokkun varðandi röð liða.

Hrunamenn misstu þó aldrei fókus og unnu alla sína leiki 2-0 og eru því Hraðmótsmeistarar HSK í blaki karla árið 2013. Grípa þurfti til stigahlutfallsins til þess að skera úr um annað sætið en Hamar og Selfoss voru með jafn mörg stig að loknum öllum leikjum. Það fór svo að Hamar bæði skoruðu fleiri stig og fengu færri á sig heldur en Selfoss og voru því með betra stigahlutfall og hrepptu annað sætið og Selfoss fékk það þriðja. Lokaröð liða má sjá hér að neðan.

Heildarúrslit eru á www.hsk.is.

Lokastaðan í hraðmóti karla:
1. Hamar A
2. Dímon/Hekla A
3. Laugdælir Y
4. Laugdælir U
5. Garpur
6. Hrun. B
7. Hvöt
8. Dímon/Hekla B
9. Hrun. B
10. Hamar B

Lokastaðan í hraðmóti karla:
1. Hrunamenn 8 stig
2. Hamar 5 stig
3. Selfoss 5 stig
4. Laugdælir 2 stig
5. Dímon 0 stig

Fyrri greinHundrað manns á haustfundi í Þingborg
Næsta greinLaugdælir fá Snæfell í heimsókn