Hamar að missa af lestinni

Hamar tapaði sínum fjórða leik í röð í 2. deild karla í knattspyrnu í dag og er að missa af lestinni í toppslagnum. Hamar laut í gras gegn Dalvík/Reyni, 2-0.

Liðin skiptust á að sækja í fyrri hálfleik en Dalvíkingar skoruðu fyrra mark sitt á 38. mínútu og staðan var 1-0 í leikhléinu.

Í seinni hálfleik hélt baráttan áfram og heimamenn fengu vítaspyrnu á 75. mínútu sem þeir skoruðu úr og gerðu þar með út um leikinn.

Þetta var fjórða tap Hamars í röð en fyrir fjórum umferðum sat liðið í toppsæti deildarinnar. Síðan hafa þeir sigið niður töfluna og eru nú í 8. sæti og vonirnar um 1. deildarsætið fara hratt þverrandi.

Fyrri greinNaumur sigur Keflvíkinga
Næsta greinGullkistan opin í dag