Hamar 2 og Dímon-Hekla 1 hraðmótsmeistarar

Hraðmót HSK 2014 í blaki voru haldin fyrir stuttu. Hamar 2 sigraði í karlaflokki en lið Dímonar-Heklu 1 í kvennaflokki.

Hjá körlunum spiluðu Dímon, Hamar 1, Hamar 2 og Laugdælir um titilinn. Hrunamenn voru skráðir upphaflega en urðu að draga sig úr mótinu vegna manneklu og því ljóst að nýir hraðmótsmeistarar yrðu krýndir.

Mótið gekk vel fyrir sig, nokkrir nýliðar sáust spreyta sig inn á milli gamalla refa, og hafa eflaust öll liðin viljað fá titilinn. Það kom þó að lokum í hlut Hamars 2, sem einnig vildu kalla sig „unga“, að hljóta titilinn hraðsmótsmeistarar í blaki karla 2014. Þeir sigruðu sína andstæðinga 2-0 í öllum leikjum og fengu fullt hús stiga.

Beita þurfti útreikningum á stigahlutfalli til þess að sjá hvort liðið yrði ofar, þeir „gömlu“ í Hamri 1 eða Dímon, en Hamar 1 hafði betra stigahlutfall og hlaut því silfrið. Liðsmenn Dímon tóku þó hróðugir við bronsinu en Laugdælir urðu að hverfa frá verðlaunalausir. Einstök úrslit leikja má sjá hér að neðan.

Hjá konunum voru 7 lið skráð og ljóst að kvöldið yrði langt þar sem leikið var eftir planinu „allir spila við alla“. Eftir rétt um 4 og ½ klst af maraþon blaki lágu úrslitin loksins fyrir og var ljóst að Dímon-Hekla 1 hlaut titilinn Hraðmótsmeistarar í blaki kvenna 2014. Ekki eru nema 10 ár síðan þær hlutu þennan titil síðast.

Hamar 1 sem átti titil að verja veitti þeim þó harða samkeppni og skildi aðeins ein hrina liðin að. Í þriðja sæti urðu svo Laugdælur en þær unnu einni hrinu meira en lið Hrunakvenna 1 sem er í sífelldri framför.

Fyrri greinSkaftafellsstofa stækkuð
Næsta greinÁtján marka sigur Selfoss