Halldór Jóhann tekur við Selfoss

Halldór Jóhann og Þórir Haraldsson, formaður, handsala samninginn. Ljósmynd/aðsend

Handknattleiksdeild Umf. Selfoss hefur ráðið Halldór Jóhann Sigfússon sem þjálfara meistaraflokks karla frá og með næsta tímabili, en Halldór skrifaði undir þriggja ára samning við Selfoss. Auk þess að þjálfa meistaraflokk mun hann verða framkvæmdastjóri handknattleiksakademíunnar sem deildin rekur ásamt Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Halldór er uppalinn KA-maður og spilaði auk þess með Fram hér heima. Þá hefur hann einnig spilað með TSG Friesenheim og TUSEM Essen í Þýskalandi. Hann hóf þjálfaraferil sinn hjá kvennaliði Fram sem hann gerði að Íslandsmeisturum árið 2013. Halldór þjálfaði FH í fimm ár og gerði liðið að deildarmeisturum árið 2017 og bikarmeisturum í fyrra. Þá er hann einnig aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna.

Handknattleiksdeild Selfoss er gríðarlega ánægð með að hafa náð samningi við Halldór sem mun halda áfram því metnaðarfulla starfi sem hefur verið í gangi á Selfossi undanfarin ár.

Fyrri greinLeitað að hugmyndum fyrir Vor í Árborg
Næsta greinHamar fékk skell í Njarðvík