Halldór Garðar til liðs við Keflavík

Halldór Garðar skrifar undir hjá Keflavík. Ljósmynd/Keflavík karfa

Körfuknattleiksmaðurinn Halldór Garðar Hermannsson mun ekki leika með Íslandsmeisturum Þórs á komandi leiktíð því hann skrifaði undir tveggja ára samning við Keflavík í vikunni.

Halldór, sem er bakvörður, hefur spilað allan sinn feril með Þórsurum. Einnig hefur hann verið í yngri landsliðshópum Íslands undanfarin ár og gert tilkall í A-landsliðið.

„Ég er að flytja í Reykjanesbæ og fannst þetta vera rétti tíminn fyrir mig að prófa eitthvað nýtt og fá nýja áskorun,“ sagði Halldór Garðar í viðtali við Hafnarfréttir en kærasta hans er úr Reykjanesbæ og hefur hann haft þar annan fótinn undanfarin ár. „Ég vil bara þakka fyrir mig. Það hefur verið ótrúlega skemmtilegt að spila fyrir Þór öll þessi ár og að enda það með Íslandsmeistaratitli með allt sveitarfélagið á bakvið okkur var alveg ólýsanlegt. Þór í þúsund ár!“ sagði Halldór ennfremur.

Hafnarfréttir greina einnig frá því að Þór hafi samið við danska landsliðsmanninn Daniel Mortensen fyrir komandi tímabil. Honum er ætlað að fylla skarð Callum Lawson sem ætlar að reyna fyrir sér á meginlandinu. Einnig hefur Þór samið við litháenska leikmanninn Ronaldas Rutkauskas sem hefur spilað megnið af ferlinum í Frakklandi og Grikklandi.

Fyrri greinDagur íslenska fjárhundsins á netinu
Næsta greinEva María komst ekki í úrslit