Hallaði undan fæti í seinni hálfleik

Sölvi Svavarsson var sterkur í vörn og sókn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði gegn Fram í úrvalsdeild karla í handbolta þegar liðin mættust í Úlfarsárdalnum í kvöld.

Selfyssingar léku á als oddi í fyrri hálfleik og stemningin var virkilega góð. Þeir komust í 4-8 snemma leiks og staðan í hálfleik var 12-15.

Sóknarleikur Selfyssinga fór að hiksta í upphafi seinni hálfleiks og Framarar jöfnuðu 17-17 eftir að margar sóknir Selfoss höfðu farið í súginn. Heimamennn höfðu forystuna eftir þetta en það var ekki fyrr en á lokakaflanum að munurinn varð fjögur mörk og lokatölur leiksins urðu 28-24.

Gunnar Kári Bragason var öflugur á línunni hjá Selfyssingum með 7 mörk úr 8 skotum. Hans Jörgen Ólafsson skoraði 4, Sölvi Svavarsson 3/2, Hannes Höskuldsson og Sveinn Andri Sveinsson 3, Tryggvi Sigurberg Traustason 2 og þeir Jason Dagur Þórisson og Sverrir Pálsson skoruðu sitt markið hvor.

Vilius Rasimas var í stuði í markinu í fyrri hálfleik en markvarslan dalaði mjög í seinni hálfleik. Hann varði 8 skot og var með 27% markvörslu og Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 1 skot og var með 14% markvörslu.

Með sigrinum lyftu Framarar sér upp í 5. sæti deildarinnar með 19 stig en Selfoss er áfram á botninum með 6 stig.

Fyrri greinMyndlistarsýningin „Maður og efni“
Næsta greinHringferð þingflokks Sjálfstæðisflokksins