Halla María og Sigþór unnu átta titla

Um síðustu helgi fór fram Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum í Vík í Mýrdal þar sem keppendur frá HSK/SELFOSS náðu mjög góðum árangri.

HSK/SELFOSS sendi vaska sveit til keppni sem taldi 25 manns, ásamt þjálfurum og aðstandendum keppenda. HSK/SELFOSS liðinu gekk mjög vel. Það vann 11 gullverðlaun, 10 silfurverðlaun og 5 bronsverðlaun ásamt því að verða Íslandsmeistarar í flokki stúlkna 12 ára með Höllu Maríu í broddi fylkingar. Fengu þær 139,5 stig meðan næsta lið, ÍR, var með 78 stig.

HSK/SELFOSS varð svo í öðru sæti hjá 12 ára piltum og 14 ára stúlkum. Í heildarstigakeppninni var HSK/SELFOSS í 2. sæti með 465,5 stig en FH sigraði með 680,3 stig. Gott veður var fyrri daginn en afleitt þann seinni, rok og rigning sem háði keppendum verulega.

Halla María Magnúsdóttir, Selfoss, stóð sig frábærlega á MÍ en hún vann til fimm gullverðlauna í flokki 12 ára stúlkna. Hún byrjaði á því að sigra kúluvarpið með því að kasta 11,02 m en þar varð stalla hennar úr Selfossi Harpa Svansdóttir í öðru sæti með 8,60 m. Þær Diljá, Harpa og Halla allar frá Selfossi og Sunna Skeggjadóttir frá Baldri enduðu fyrri dag keppninnar á að sigra 4x100m boðhlaupið á 59,57 s. Sveit USVS varð þriðja í því hlaupi á 75,27 sek.

Á seinni degi vann Halla spjótkast með 24,53 m þar sem Harpa varð þriðja með 18,59 m. Næst voru það úrslit í 60 m. Fyrri daginn hafði Halla sett nýtt HSK met í undanrásum er hún hljóp á 8,56 s. Halla kom lang fyrst í mark í úrslitahlaupinu á 8,13 sek. en vindur var of mikill til að fá tíman staðfestan sem nýtt met. Halla sigraði svo langstökkið eftir hörkukeppni við Hörpu með stökk upp á 4,38 m en Harpa varð önnur með 4,37 m. Að lokum hljóp Halla til silfurverðlauna í 800m hlaupi í miklu roki og rigningu á 2:57,20 mín. Aðrar stúlkur í HSK/SELFOSS í þessum flokki voru oft nálægt verðlaunasætum.

Sigþór Helgason, Selfoss, kom sterkur til leiks í flokki 14 ára pilta. Hann sigraði þrjár greinar og tók silfur í tveimur. Hann vann hástökkið með yfirburðum stökk 1,78 m og bætti sig um 17 cm. Hann reyndi við nýtt HSK met, 1,82 m en feldi naumlega. Hann sigraði svo kúluvarpið með 10,97 m og spjótkast með 47,47 m örugglega. Sigþór tók svo silfur í 100m hlaupi, 12,26 s. og í 80m grindahlaupi á 13,91 s. Frábært mót hjá honum.

Í flokki 11 ára pilta sigraði Stefán Narfi Bjarnason, Baldri, kúluvarpið með yfirburðum kastaði 9,05 m. Í sama flokki hjá stúlkum vann Jana Lind Ellertsdóttir Selfoss silfur í 60 m hlaupi hljóp á 9,47 s.

Í flokki 12 ára varð Úlfur Böðvarsson í þriðji í kúluvarpi með 8,43m. Hann ásamt félögum sínum Stefáni Narfa, Baldri, Almari Óla, Dímon og Baldri Dýrfjörð, Þór Þorlákshöfn komu svo fyrstir í mark í 4x100m boðhlaupi á tímanum 60,50 s. Sveit heimamanna í USVS varð í 2. sæti á 70,21 sek.

Í 13 ára flokki pilta voru tveir öflugir keppendur frá HSK/SELFOSS, þeir Teitur Örn Einarsson Selfossi og Sveinbjörn Jóhannsson Laugdælum. Teitur varð annar í spjótkasti á persónulega bætingu með 38,52 m og í kúluvarpi með 9,66 m þar sem Sveinbjörn varð þriðji með 9,63 m. Teitur kom svo þriðji í mark í miklu rokhlaupi í 800 m hljóp á 2:47,80 mín.

Að síðustu er það flokkur 14 ára stúlkna. Þar voru tvær sterkar frá HSK/SELFOSS. Dagný Lísa Davíðsdóttir Selfoss varð Íslandsmeistari í hástökki með 1,56 m og persónulega bætingu og Andrea Vigdís Victorsdóttir Selfoss en hún vann silfur í spjótkasti með kast upp á 28,82 m og brons í 80 m grindahlaupi er hún hljóp á 14,28 s.

Fyrri greinUtanvegahlaupið komið til að vera
Næsta greinUndirbúningur í fullum gangi