Hákon Þór kominn inn á Ólympíuleikana

Hákon Þór Svavarsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingurinn Hákon Þór Svavarsson, skotíþróttamaður úr Skotíþróttafélagi Suðurlands, hefur fengið boð um þátttöku á Ólympíuleikunum í París í sumar en Alþjóðaólympíunefndin staðfesti það í gær.

Hákon Þór verður þar með þriðji Íslendingurinn sem kemst inn á Ólympíuleikana en hann keppir í haglabyssuskotfimi, svokölluðu skeet. Hákon, sem er 45 ára, hefur æft skeet í 25 ár en hann hefur sett mikinn kraft í íþróttina á síðustu árum og er margfaldur Íslandsmeistari og Íslandsmethafi. Hákon hefur stefnt markvisst að því að komast á leikana undanfarin ár.

Sunnlenska.is náði örstutt í skottið á Hákoni í gær en þá var hann staddur í Lonato á Ítalíu þar sem keppni á Heimsbikarmótinu er að hefjast. Hann segist spenntur fyrir sínum fyrstu Ólympíuleikum.

„Já, þetta verður spennandi. Nú er bara stíft æfingaprógram framundan og það verður alltaf markmiðið að komast í úrslit í keppninni á Ólympíuleikunum,“ sagði Hákon Þór í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinStarfsfólk sjúkrahúsa fær samfélagsviðurkenningu Krabbameinsfélagsins
Næsta greinRagna ráðin aðstoðarskólastjóri