Hákon skoraði 17 í miklum markaleik

Hákon Garri Gestsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Alls voru skoruð 87 mörk í viðureign Fram 2 og Selfoss 2 í 1. deild karla í handbolta í dag. Framarar unnu á endanum nokkuð öruggan sigur, 45-42.

Leikurinn var jafn fyrsta korterið og liðin skiptust á sýna skemmtilega takta í sókninni á meðan varnarleikurinn var í lágmarki. Framarar tóku sprett eftir um tuttugu mínútur og náðu sjö marka forskoti á skömmum tíma. Staðan var 27-22 í hálfleik.

Fram hafði öruggt forskot allan seinni hálfleikinn en á síðustu tíu mínútunum náðu Selfyssingar að saxa það niður. Þeir náðu að minnka muninn í tvö mörk en komust ekki nær og fram sigraði að lokum með þriggja marka mun.

Hákon Garri Gestsson var markahæstur Selfyssinga með 17 mörk, Anton Breki Hjaltason og Bjarni Valur Bjarnason skoruðu 5, Dagur Rafn Gíslason 4, Kristján E. Kristjánsson, Skarphéðinn Steinn Sveinsson og Ragnar Hilmarsson 3 og þeir Jón Valgeir Guðmundsson og Hilmar Bjarni Ásgeirsson skoruðu sitt markið hvor.

Garðar Freyr Bergsson varði 10 skot í marki Selfoss og Ísak Kristinn Jónsson 2.

Selfoss 2 er í 4. sæti deildarinnar með 6 stig en Fram 2 í 2. sæti með 8 stig.

Fyrri greinEldur í traktor í Þjórsárdal
Næsta greinFyrsta undirstaðan steypt í Vaðölduveri