Hákon bjargaði stigi fyrir Stokkseyri

Hákon Logi Stefánsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri tók í móti Úlfunum í 5. deild karla í knattspyrnu á Stokkseyrarvelli í kvöld. Það var norðangjóla á Stokkseyri og vindurinn hafði áhrif á gæði leiksins. Leikurinn var markalaus í fyrri hálfleik eftir að bæði lið höfðu fengið ágæt færi.

Hlutirnir fóru hins vegar að gerast í seinni hálfleiknum. Úlfarnir sóttu meira framan af og komust yfir á 65. mínútu þegar Stokkseyringar sváfu á verðinum. Heimamenn létu þetta ekki á sig fá og á 86. mínútu kom Hákon Logi Stefánsson boltanum í netið með skoti af stuttu færi eftir frábæra aukaspyrnu Örvars Hugasonar. Skömmu síðar átti Örvar aðra spyrnu inn í vítateiginn og Stokkseyringar voru hársbreidd frá því að koma boltanum í markið og tryggja sér sigurinn. Það tókst ekki og lokatölur urðu 1-1.

Í B-riðlinum fékk KFR Berserki/Mídas í heimsókn í gærkvöldi. Gestirnir höfðu 0-2 sigur og komu bæði mörk leiksins í fyrri hálfleik.

Staðan í 5. deildinni er þannig að í A-riðlinum er Stokkseyri í 5. sæti með 13 stig en í B-riðlinum er KFR í 4. sæti með 15 stig.

Fyrri grein„Lífsgæðin haldast lengur“
Næsta greinÁlfheimar fá 3 milljón króna styrk