Hafsteinn valinn blakmaður ársins

Stjórn Blaksambands Íslands hefur valið Hvergerðinginn Hafstein Valdimarsson sem blakmann ársins 2011.

Hafsteinn er leikmaður Marienlyst í Danmörku en liðið er um þessar mundir á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar. Síðastliðin tvö leiktímabil hefur Hafsteinn verið ásamt Kristjáni, bróður sínum hjá HIK Aalborg. Það lið endaði í fimmta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar í fyrra en munaði þó minnstu að liðið næði fjórða sætinu og kæmist í úrslitakeppnina.

Í sumar gengu þeir bræður til liðs við Marienlyst en liðið ætlar sér stóra hluti í vetur og er m.a. komið í úrslit bikarkeppninnar eftir 3-0 sigur á HIK Aalborg í undanúrslitum í gærkvöldi. Liðið hefur að verja bæði danska bikarinn og danmerkurmeistarann frá síðustu leiktíð.

Hafsteinn hefur spilað stórt hlutverk í miðjustöðunni í vetur en liðið hefur aðeins tapað tveimur leikjum af tólf í deildinni. Marienlyst er eitt fjögurra liða sem leikur í úrslitum NEVZA keppni félagsliða í lok janúar.

Hafsteinn var í A landsliði Íslands í báðum verkefnum ársins og var einn af burðarásum í liðinu. A landsliðið spilaði í úrslitum EM smáþjóða í byrjun maí en hafnaði í neðsta sætinu. Liðið lék einnig á Smáþjóðaleikunum í Liechtenstein en þar endaði liðið í fjórða sæti af sex þjóðum.