Hafsteinn og Kristján Norðurlandameistarar

Hvergerðingarnir Hafsteinn og Kristján Valdimarssynir urðu í dag Norðurlandameistarar í blaki með danska félagsliði sínu Marienlyst.

Sterkustu blaklið Norðurlandanna, dönsku liðin Gentofte, Marienlyst og Middelfart og norska liðið Nyborg frá Bergen áttust í vikunni við í fjögurra liða riðli þar sem allir spiluðu við alla. Fyrir leikinn í dag var Marienlyst efst í riðlinum með tvo unna leiki, Gentofte var í öðru sæti með einn unnin leik en með sigri í dag gat það tryggt sér Norðurlandameistaratitilinn.

Liðin skiptust á að vinna hrinurnar og þurfti oddahrinu til að knýja fram úrslit í leiknum. Oddahrinuna sigraði Marienlyst 15-10 og Norðurlandameistaratitillinn þar með þeirra.

Það er skammt stórra högga á milli hjá þeim bræðrum en þeir urðu danskir bikarmeistarar með liði sínu um síðustu helgi, þá einnig með sigri á Gentofte í úrslitaleiknum.

Hafsteinn og Kristján hófu atvinnumannaferil sinn í fyrra þegar þeir spiluðu með HIK Álaborg. Frammistaða þeirra heillaði forráðamenn dönsku meistaranna í Marienlyst sem fengu þá til lið við liðið í haust.