Hvergerðingurinn Hafsteinn Valdimarsson var fánaberi Íslands ásamt Ernu Sóleyju Gunnarsdóttur kúluvarpara á setningarhátíð Smáþjóðaleikanna á þjóðarleikvangi Andorra í gærkvöldi. Keppni á leikunum hófst í dag.
Hafsteinn er fyrirliði karlalandsliðsins í blaki og fyrirliði Hamars í Hveragerði. Þetta eru 7. Smáþjóðaleikar Hafsteins sem nú er á sínu 17. ári í landsliðinu í blaki. Hafsteinn hefur unnið til fjölmargra Íslands-, bikar- og deildarmeistaratitla með Hamri en hann á einnig að baki langan atvinnumannaferil þar sem hann lék í Danmörku, Austurríki og Frakklandi.
Sunnlendingar eiga nokkra aðra fulltrúa á Smáþjóðaleikunum, blakmennina Kristján Valdimarsson og Valgeir Valgeirsson, Böðvar Arnarsson úr Judofélagi Suðurlands keppir í júdó, Selfyssingurinn Örn Davíðsson í spjótkasti og Hvergerðingurinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir í sundi. Magnús Ragnarsson úr Skotfélaginu Skyttum er flokksstjóri skotfimiliðsins og Selfyssingurinn Olga Bjarnadóttir, stjórnarkona í ÍSÍ, situr í tækninefnd leikanna. Þá er Ásmundur Jónsson frá Selfossi nuddari frjálsíþróttaliðsins og Steindór Gunnarsson úr Þykkvabænum er einn af sundþjálfurum íslenska hópsins.

