Hafsteinn blakmaður ársins

Blaksamband Íslands útnefndi í síðustu viku Hvergerðinginn Hafstein Valdimarsson blakmann ársins 2014.

Hafsteinn er leikmaður Marienlyst í Danmörku. Hann varð bæði bikar- og danmerkurmeistari með sínu liði á árinu og lið hans endaði í 4. sæti í Norður-Evrópukeppni félagsliða.

Hafsteinn hlaut flest stig í kosningu sem besti miðjumaðurinn í dönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og var því í liði ársins sem tilkynnt var um í vor. Hann er burðarás í íslenska karlalandsliðinu en á árinu tók liðið þátt í undankeppni EM smáþjóða í Laugardalshöllinni í Reykjavík.

Um þessar mundir er Hafsteinn í Marienlyst að berjast um alla titla í Danmörku en um helgina spilaði lið hans í undanúrslitum í bikarkeppninni gegn Hvidovre og sigraði örugglega, 3-0. Í sumar spilaði Hafsteinn í Íslandsmótinu í strandblaki og hafnaði í 3. sæti ásamt bróður sínum, Kristjáni. Jafnframt léku þeir fyrir Íslands hönd í undankeppni fyrir Ólympíuleikana í Portúgal og í Odense.

Hafsteinn gat ekki veitt viðurkenningu sinni viðtöku að þessu sinni en Guðbjörg Valdimarsdóttir, systir hans tók viðviðurkenningunni fyrir hans hönd.

Elísabet Einarsdóttir, HK, var valin blakkona ársins.


Hafsteinn ásamt Kristjáni bróður sínum. sunnlenska.is/Sigrún Kristjánsdóttir

Fyrri greinRökkvi Hljómur dúxaði í FSu
Næsta greinHeldur lakari árangur í dagskóla