„Hættum ekki að spila körfubolta“

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, var ánægður með áfangann sem liðið náði í kvöld en bætti við að markmiðum liðsins væri ekki náð.

„Auðvitað er gott að ná þessu svona snemma en það skiptir ekki máli hvaða dagsetning er á þessum áfanga. Við erum búnir að gera nóg til þess að fara upp en við erum ekki búnir að ná markmiðum okkar,“ sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „Við höfum stefnt að því í allan vetur að klára alla okkar leiki með sigri. Við hættum ekkert að spila körfubolta þó að við séum komnir upp.“

Þórsarar voru lengi í gang í kvöld en í seinni hálfleik var aldrei spurning hvoru megin sigurinn lenti. „Þetta var frekar kaflaskipt hjá okkur framan af í kvöld. Við vorum frekar stirðir af stað og slakir í upphafi leiks en við kláruðum þetta nokkuð örugglega í seinni hálfleik,“ segir Benedikt.

Um 230 áhorfendur voru á leiknum og fögnuðu þeir vel. Þar fór stuðningsmannaliðið Græni drekinn fremstur í flokki en þeir hafa verið í úrvalsdeildarklassa í allan vetur. „Já, Græni drekinn stóð sig vel bæði í leiknum og eftir leik. Þeir eru búnir að vera frábærir í vetur og örugglega í topp tveimur hjá stuðningsmannaliðunum á landinu,“ sagði Benedikt að lokum.

Fyrri greinÞórsarar í úrvalsdeild
Næsta greinML úr leik eftir jafna keppni