Hættur eftir 25 ára formennsku

Karl Gunnlaugsson hætti sem formaður Golfklúbbs Flúða á aðalfundi í lok janúar en hann hefur verið formaður klúbbsins frá stofnun hans fyrir 25 árum.

Ragnar Pálsson tók við stjórnartaumunum af Karli á aðalfundinum.

“Einhvern tímann verður maður að hætta. Ef maður stendur of lengi í þessu þá fer maður að halda að maður sé ómissandi og þá er nú betra að hleypa yngri mönnum að,” sagði Karl í samtali við sunnlenska.is en hann verður áttræður á árinu.

“Ég legg samt ekki golfsettið frá mér og vil helst ekki gera það fyrr en ég er kominn í kistuna. Golf er frábær afþreying og lætur tímann líða hratt. Dagarnir eru allt of stuttir þegar maður stundar golf.”

Golfklúbburinn Flúðir var stofnaður 29. júlí 1985 og Karl var formaður hans í 25 og hálft ár upp á dag en hann lét af formennsku 29. janúar 2011.