Gunnar ráðinn yfirmaður knattspyrnumála á Selfossi

Gunnar Rafn Borgþórsson hefur verið ráðinn yfirmaður knattspyrnumála og þjálfari meistaraflokks karla hjá knattspyrnudeild Selfoss.

Sem yfirmaður knattspyrnumála mun Gunnar sjá um stefnumótun í þjálfun yngri flokka félagsins. Einnig mun hann stýra teymi þjálfara meistaraflokks kvenna og 2. flokks karla og kvenna. Gunnar mun hafa yfirumsjón með öllu faglegu starfi deildarinnar og veita þjálfurum allra flokka ráðgjöf.

Staða yfirmanns knattspyrnumála er ný staða hjá knattspyrnudeildinni en markmiðið með henni er að efla innra starf félagsins og auka gæða þjálfunar á öllum stigum deildarinnar.

Gunnar hefur starfað hjá knattspyrnudeild Selfoss frá árinu 2008 sem leikmaður, yfirþjálfari yngri flokka og þjálfari meistaraflokks kvenna. Á nýliðnu sumri tók hann við stjórn karlaliðsins í júlí til loka tímabilsins en undir stjórn Gunnars bjargaði liðið sér frá falli og mun leika áfram í 1. deildinni á næsta keppnistímabili.

„Þetta er mjög spennandi starf og býður upp á marga kosti fyrir mig sem þjálfara. Hluti af því að ég taki við karlaliðinu er að auka samkenndina og samvinnuna í klúbbnum. Kvennaliðið er komið á frábæran stað og hefur náð góðum árangri með öflugri umgjörð og mögnuðu starfsfólki. Ég fann það þegar karla- og kvennaliðin fóru að vinna saman í sumar að það var jákvætt fyrir deildina í heild sinni. Ég er mjög ánægður með að Selfoss sé að taka þetta skref því við ætlum okkur að verða flottasti klúbbur á landinu, ekki bara í kvennaboltanum,“ segir Gunnar.

Í tilkynningu frá knattspyrnudeildinni kemur fram að nýr þjálfari kvennaliðs Selfoss verði kynntur á næstu dögum.

Fyrri greinNýr námsvefur í dönsku eftir sunnlenska höfunda
Næsta greinHamar og FSu sigruðu