Gunnar og Kristbjörg ræktunarmenn ársins

Gunnar Arnarson og Kristbjörg Eyvindsdóttir í Auðsholtshjáleigu í Ölfusi voru í dag útnefnd ræktunarmenn ársins 2011 í hrossarækt.

Verðlaunin sem veitt eru fyrir framúrskarandi árangur á árinu voru afhent á ráðstefnunni Hrossarækt 2011 sem fram fór í Reykjavík í dag. Auðsholtshjáleiga hefur náð frábærum árangri á árinu, ekki einungis í einstakslingssýndum hrossum heldur var einnig framúrskarandi árangur hjá afkvæmasýndum hrossum frá búinu á þessu ári.

Gunnar og Kristbjörg eru hlaðin verðlaunum eftir árið en þau tóku við Sleipnisbikarnum á Landsmóti hestamanna í sumar fyrir stóðhestinn Gára frá Auðholtshjáleigu, sem varð efsti heiðursverðlaunahestur fyrir afkvæmi.

Spuni frá Vesturkoti var verðlaunaður sérstaklega í dag en hann sló í gegn á landsmótinu í sumar. Þórður Þorgeirsson og Hulda Finnsdóttir tóku við verðlaunum sem knapi og fulltrúi eiganda.

Á ráðstefnunni var farið yfir stöðuna í hrossaræktinni og hugsanlegar breytingar á næsta ári og ýmis fræðsluerindi flutt.