Gunnar Bjarni skoraði þrennu í öruggum sigri

Knattspyrnufélag Árborgar vann seiglusigur á Herði Ísafirði á JÁVERK-vellinum á Selfossi í dag í 4. deild karla í knattspyrnu.

Árborgarar styrkja þar með stöðu sína í toppsæti A-riðils en liðið hefur tryggt sér sæti í úrslitakeppni 4. deildarinnar ásamt Berserkjum sem eru í 2. sæti riðilsins. Tvö lið úr hverjum riðli fara í 8-liða úrslit í 4. deildinni.

Árborgarliðið var sterkara í fyrri hálfleik og fékk nokkur ákjósanleg færi en markvörður Harðar, Anthony Ferrara, sá ítrekað við þeim. Staðan var 0-0 í hálfleik.

Á 51. mínútu virtist leikskipulag Harðar ætla að ganga upp þegar Ásgeir Hinrik Gíslason kom þeim yfir með góðu skoti úr vítateignum eftir skyndisókn. Gunnar Bjarni Oddsson jafnaði metin fyrir Árborg aðeins mínútu síðar og á 56. mínútu hafði hann skorað aftur og staðan orðin 2-1.

Árborg hélt áfram að sækja en aftur svöruðu Harðarmenn með keimlíku marki úr skyndisókn og aftur var Ásgeir Hinrik þar á ferðinni. 2-2.

Sóknir Árborgar þyngdust enn frekar þegar leið á leikinn og á 73. mínútu skoraði Aron Freyr Margeirsson eftir að hafa komið inná sem varamaður fimm mínútum fyrr. Gunnar Bjarni innsiglaði svo þrennuna af vítapunktinum á 88. mínútu eftir að brotið hafði verið á Aroni Frey. Árborgarar voru ekki hættir því Magnús Helgi Sigurðsson skoraði langþráð mark í uppbótartíma eftir góða sendingu frá Tómasi Kjartanssyni.

Árborg hefur nú 28 stig í efsta sæti riðilsins en Hörður er í 5. sæti með 12 stig.