Gummi Tyrfings kominn heim

Dean Martin, þjálfari Selfoss, býður Guðmund velkominn heim. Ljósmynd: UMFS/Arnar Helgi

Guðmundur Tyrfingsson skrifaði í dag undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss. Guðmundur kemur til liðsins frá ÍA þar sem hann hefur spilað undanfarin ár.

Eins og Sunnlendingar flestir vita er Guðmundur fæddur og uppalinn á Selfossi og steig sín fyrstu skref í meistaraflokksbolta þar. Hann spilaði síðast með Selfyssingum sumarið 2020 áður en hann var seldur á Skagann um mitt tímabil.

„Ég er virkilega spenntur fyrir því að vera kominn heim á Selfoss og fá að klæðast vínrauðu treyjunni á nýjan leik. Það eru spennandi hlutir að gerast á Selfossi sem sýnir sig best í stöðutöflunni í Lengjudeildinni,“ sagði Guðmundur við undirskriftina.

Guðmundur verður strax gjaldgengur með Selfossi og gætu stuðningsmenn liðsins séð hann spila sínar fyrstu mínútur strax á fimmtudag gegn Gróttu.

Fyrri greinEndurlífguðu stúlku á bílastæðinu við sjúkrahúsið
Næsta greinTónlistarveisla í Vík Mýrdal á fimmtudag