Gummi kominn heim og semur við ÍA

Guðmundur Þórarinsson. Ljósmynd/Jón Gautur Hannesson

Selfyssingurinn Guðmundur Þórarinsson er fluttur aftur heim til Íslands eftir þrettán ára feril í atvinnumennsku erlendis. Guðmundur hefur samið við ÍA til tveggja ára og mun leika með Skagamönnum í Bestu deildinni í sumar.

Guðmundur kemur til ÍA á frjálsri sölu frá armenska félaginu FC Noah. Hann óskaði eftir því að losna frá félaginu og hefur nú flutt heim með fjölskyldu sína. Á atvinnumannaferli sínum hefur Guðmundur leikið í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, í MLS-deildinni í Bandaríkjunum og í grísku úrvalsdeildinni.

Á ferlinum hefur Guðmundur meðal annars orðið norskur deildar- og bikarmeistari með Rosenborg, meistari í MLS-deildinni með New York City FC, og deildar- og bikarmeistari með FC Noah.

Guðmundur á 15 A-landsleiki að baki fyrir íslenska karla landsliðið.

„Það er stórt og mikilvægt fyrir Knattspyrnufélagið ÍA að Guðmundur hafi valið ÍA og Akranes sem næsta áfangastað á sínum ferli. Koma hans styrkir liðið og félagið í heild sinni og mun nýtast vel á komandi árum,“ segja Skagamenn í fréttatilkynningu.

Fyrri greinHaukur við stýrið í stórsigri á Póllandi