Gull og brons í Danmörku

Um síðustu helgi fóru þrír keppendur frá júdódeild Umf. Selfoss til keppni á Hilleröd International í Danmörku ásamt nítján öðrum íslenskum keppendum. Selfyssingarnir stóðu sig vel og komu heim með gull og brons.

Mótið, sem var mjög fjölmennt, var nú haldið í þrítugasta sinn, en það er fyrir keppendur 21 árs og yngri. Keppendur komu flestir frá Norðurlöndunum en einnig víða að úr Evrópu. Keppendurnir sem fóru frá Selfossi voru Grímur Ívarsson, Úlfur Böðvarsson og Egill Blöndal.

Úlfur keppti í U13 og átti fimm viðureignir. Hann vann þær allar og kom heim með gull. Fyrsta viðureignin var gríðarlega tvísýn en eftir þá glímu vann Úlfur næstu glímur af öryggi. Þetta er flottur árangur hjá Úlfi sem var að keppa á sínu fyrsta móti erlendis.

Grímur, sem einnig var að keppa fyrsta sinn erlendis, keppti í U17. Grímur er 14 ára og var þar af leiðandi í hópi yngstu keppanda í U17 flokknum. Hann vann eina viðureign en tapaði þremur. Fínn árangur hjá Grími í erfiðum flokki.

Egill Blöndal keppti í U17 flokki. Egill hefur æft vel og keppir á öllum mótum innanlands. Hann glímdi samtals átta viðureignir og vann fimm sem skilaði honum bronsverðlaunum. Egill er að skipa sér í hóp fremstu júdómanna landsins.