Gull og brons eftir harða samkeppni

(F.v.) Þröstur Valsson, Egill Blöndal og Fannar Júlíusson. Ljósmynd/Aðsend

Glímufélagið Berserkir á Selfossi sendi þrjá keppendur til leiks á RVK Open Sub Only, sem fram fór í Reykjavík MMA um helgina. Alls tóku 54 keppendur þátt í mótinu, þar sem keppt er í „submission only“ fyrirkomulagi – engin stig eru gefin og glímt er þar til annar nær uppgjafartaki.

Keppendur voru flokkaðir eftir reynslu, í undir og yfir tveggja ára reynslu. Berserkir stóðu sig frábærlega og komu heim með gull og brons úr harðri samkeppni.

Fannar Júlíusson keppti í -85 kg flokki undir tveggja ára reynslu. Þar voru 15 keppendur og tapaði Fannar fyrstu glímu sinni, en kom tvíefldur til baka og vann þá næstu með armlás.

Þröstur Valsson tók þátt í +85 kg flokki undir tveggja ára reynslu, þar sem 12 keppendur öttu kappi. Hann sigraði fyrstu tvær glímurnar örugglega en tapaði í undanúrslitum fyrir Ara, sem síðar vann flokkinn. Þröstur tryggði sér svo bronsið með sigri á hengingu í síðustu glímunni.

Egill Blöndal keppti í +85 kg flokki með yfir tveggja ára reynslu. Hann sat hjá í fyrstu umferð, sigraði undanúrslit á armlás og tryggði sér svo gullið eftir að andstæðingur hans meiddist í úrslitaglímu.

Fyrri greinNafn mannsins sem lést
Næsta greinUrðu innlyksa í Landmannalaugum