Gull en samt vonbrigði

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, sigraði í 400 m grindahlaupi á Eyrarsundsleikunum í frjálsíþróttum í Helsingborg í Svíþjóð í dag.

Fjóla hljóp á 61,44 sekúndum sem er nokkuð frá hennar besta tíma. Hún hafði sett markið á 60,50 sekúndur til þess að komast inn á Evrópumeistaramót U23 ára sem fram fer eftir hálfan mánuð. Nú er ljóst að hún mun ekki komast á það mót.

“Mér er eiginlega sama þó að ég hafi unnið þetta hlaup, það eru mikil vonbrigði að ná ekki lágmarkinu fyrir EM. Ég kláraði hlaupið ágætlega en var langfyrst og fékk enga keppni. Það var mikill mótvindur í upphafi en hinu megin á brautinni var skjól af stúkunni þannig að það var aldrei neinn meðvindur,” sagði Fjóla í samtali við sunnlenska.is. “Ég fékk enga keppni í þessu hlaupi og hefði þess vegna getað hlaupið það ein á Selfossvelli,” segir Fjóla og vonbrigðin leyna sér ekki.

Á morgun keppir Fjóla í 100 m grindahlaupi en Dagur Fannar Magnússon, Selfossi, keppir í sleggjukasti U19 síðar í dag.

Guðmundur Kristinn Jónsson, Selfossi, keppir í spjótkasti U17 ára á morgun og Haraldur Einarsson, Vöku, mun keppa í 100, 200 og 400 m hlaupi á morgun og á sunnudag.