Hamar/Þór tryggði sér í dag sæti í 8-liða úrslitum bikarkeppni kvenna í körfubolta með öruggum sigri á 1. deildarliði Fjölnis í Grafarvoginum.
Þær sunnlensku höfðu góð tök á leiknum frá upphafi og leiddu í hálfleik, 37-50. Fjölniskonur minnkuðu muninn í 3. leikhluta en Hamar/Þór sýndi styrk sinn í lokin og vann öruggan sigur, 85-99.
Jada Guinn var með risaþrennu fyrir Hamar/Þór, hún skoraði 30 stig, sendi 16 stoðsendingar og tók 10 fráköst. Mariana Duran daðraði líka við þrefalda tvennu, skoraði 13 stig, tók 10 fráköst og sendi 9 stoðsendingar. Ellen Iversen var sömuleiðis með frábært framlag, 20 stig og 10 fráköst.
Fjölnir-Hamar/Þór 85-99 (11-20, 26-30, 29-23, 19-26)
Tölfræði Hamars/Þórs: Jada Guinn 30/10 fráköst/16 stoðsendingar, Ellen Iversen 20/10 fráköst, Jovana Markovic 13, Mariana Duran 13/10 fráköst/9 stoðsendingar, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 11/6 stoðsendingar, Bergdís Anna Magnúsdóttir 8, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 4.

