Guðríður sæmd Heiðurskrossi og Jón M gerður að heiðursfélaga ÍSÍ

Guðríður og Jón M ásamt Lárusi L. Blöndal, fráfarandi forseta ÍSÍ. sunnlenska.is/Engilbert Olgeirsson

Við þingsetningu á íþróttaþingi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í dag voru veittar heiðursviðurkenningar til forystufólks úr íþróttahreyfingunni. Guðríður Aadnegard, formaður HSK, var sæmd Heiðurskrossi ÍSÍ og Jón M. Ívarsson frá Vorsabæjarhól var gerður að heiðursfélaga ÍSÍ.

Guðríður hefur verið formaður Héraðssambandsins Skarphéðins frá árinu 2010 eða í 15 ár. Hún var kjörin í varastjórn HSK árið 2000 og varð ritari sambandsins ári síðar. Hún er því búin að vera í leiðtogastarfi hjá HSK í 25 ár. Guðríður var áður formaður Íþróttafélagsins Hamars í Hveragerði um árabil. Þess má geta að Guðríður hlaut hvatningarverðlaun dags gegn einelti árið 2021, í starfi sem námsráðgjafi og umsjónarkennari við Grunnskólann í Hveragerði.

Jón M. Ívarsson á að baki fjölbreytt hlutverk innan íþróttahreyfingarinnar, meðal annars sem iðkandi, stjórnarmaður, dómari og leiðtogi. Hann var meðal annars formaður Glímusambands Íslands á árunum 1995 til 2001 og gegndi embætti ritara hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands. Hann hefur verið ómetanlegur við heimilda- og söguskráningu í íþróttahreyfingunni, skráð sögu fjölmargra eininga og góðfúslega gefið svör og leitað svara við ýmsum spurningum sem upp koma í starfinu og grafast þarf fyrir um í eldri heimildum. Jón var sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ árið 2019.

Fyrri greinHSU fær nýtt tölvusneiðmyndatæki
Næsta greinHeimir ráðinn skólastjóri Kvíslarskóla