Guðríður sæmd gullmerki UMFÍ

Guðríður Aadnegard ásamt Erni Guðnasyni, stjórnarmanni UMFÍ. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Guðríður Aadnegard, formaður HSK, var sæmd gullmerki Ungmennafélags Íslands á ársþingi Héraðssambandsins Skarphéðins á Laugalandi í kvöld.

Örn Guðnason, stjórnarmaður hjá UMFÍ, afhenti þar viðurkenningar til Skarphéðinsfólks fyrir hönd stjórnar UMFÍ.

Guðríður er fædd og uppalin á Sauðárkróki og tók þátt í frjálsum og handknattleik á unga aldri. Hún fluttist til Hveragerðis 1989 og hefur búið þar síðan. Hún starfaði í nokkur ár með körfuknattleiksdeild Hamars og varð síðan formaður Hamars 2002 til 2011. Guðríður var kjörin í varastjórn HSK árið 2000 og varð svo ritari sambandsins árið eftir. Árið 2010 var hún kjörin formaður HSK. Guðríður hefur setið í ótal nefndum og ráðum innan UMFÍ.

Þrjú fengu starfsmerki
Þrír aðilar fengu starfsmerki UMFÍ þau Sigríður Anna Guðjónsdóttir, Umf. Selfoss, Jóhanna Hlöðversdóttir, Íþf. Garpi og Guðmann Óskar Magnússon, Íþf. Dímoni.

Sigríður Anna hefur um árabil verið virk í starfi frjálsíþrótta innan HSK, verið þjálfari og komið að framkvæmd Unglingalandsmóta og Landsmóta UMFÍ. Hún hefur einnig verið virkur þjálfari og stjórnandi í frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss.

Jóhanna hefur um árabil starfað innan Garps og er núverandi formaður félagsins. Hún er einnig formaður Umf. Merkihvols sem m.a. vinnur að endurbótum á Brúarlundi, sem er samkomuhús félagsins.

Guðmann Óskar hefur tekið þátt í íþróttastarfi á Hvolsvelli og undir Eyjafjöllum frá unga aldri. Hann hefur starfað með frjálsíþróttaráði HSK, meðal annars sem gjaldkeri. Guðmann Óskar hefur átt sæti í stjórn Dímonar og stjórnum deilda félagsins og er núverandi formaður Ungmennafélagsins Baldurs á Hvolsvelli.

Jóhanna, Sigríður Anna og Guðmann Óskar ásamt Erni Guðnasyni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinGuðni sæmdur gullmerki HSK
Næsta greinValgerður sæmd æðsta heiðursmerki ÍSÍ