Guðný Hrund Rúnarsdóttir, Umf. Selfoss og virkur meðlimur í hlaupahópnum Frískir Flóamenn, varð í 2. sæti á Íslandsmeistaramótinu í 100 km götuhlaupi sem haldið var í Reykjavík þann 9. ágúst síðastliðinn.
Guðný var í rúmar tólf klukkustundir að hlaupa kílómetrana eitthundrað en tími hennar var 12:18,45 klst.
Mótið fór fram við Rauðavatn, þar sem keppendur hlupu 32 hringi í kringum vatnið, en hver hringur var 3,14 km að lengd.
Eftir því sem sunnlenska.is kemst næst er Guðný fyrsta konan af sambandssvæði HSK sem lýkur 100 km götuhlaupi og er tími hennar héraðsmet í kvennaflokki, sem og aldursflokki 45-49 ára.


