Guðni sæmdur gullmerki HSK

Guðni Guðmundsson þegar hann var sæmdur gullmerki HSK árið 2019. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Guðni Guðmundsson, Umf. Ingólfi og Íþf. Garpi, var sæmdur gullmerki HSK á ársþingi sambandsins á Laugalandi í kvöld. Gissur Jónsson, Umf. Selfoss og Haraldur Gísli Kristjánsson, Íþf. Garpi, voru sæmdir silfurmerki sambandsins.

Guðni Guðmundsson hefur um áratugaskeið tekið þátt í verkefnum HSK og íþróttafélaganna í Holtunum. Guðni keppti með Ingólfi í sinni heimasveit og árið 1978 tók hann þátt í að endurvekja Skjaldarglímu Skarphéðins sem formaður glímunefndar HSK. Hann hefur í seinni tíð keppt á Landsmóti 50+, síðast í Hveragerði 2017 þar sem hann keppti í 100 og 800 m hlaupi. Hann á HSK metin í þeim greinum í flokki 80-85 ára. Í dag er Guðni þekktastur fyrir sína gríðarlega umfangsmiklu dósasöfnun sem hann hefur staðið að á annan áratug, en hann er enn að á 86. aldursári sínu. Með dósasöfnuninni hefur hann meðal annars styrkt Hagakirkju, bókarsjóð HSK og Íþróttafélagið Garp.

Gissur Jónsson hefur starfað sem framkvæmdastjóri Umf. Selfoss frá árinu 2013. Áður en hann tók við því starfi var hann öflugur félagsmaður í knattspyrnudeild Selfoss og hélt meðal annars utan um getraunastarf félagsins af miklum myndugleik.

Haraldur Gísli Kristjánsson tók sæti í stjórn Garps árið 1998 og tók svo við gjaldkerastarfinu hjá félaginu árið 2004 og gegndi því til 2008. Hann hefur veirð virkur þátttakandi í frjálsíþróttastarfi í héraði en hann hefur þjálfað börn og unglinga hjá Garpi í um 20 ár.

Haraldur Gísli og Gissur ásamt Guðríði Aadnegaard, formanni HSK og Guðmundi Kr. Jónssyni, heiðursformanns sambandsins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinBenny Crespo’s Gang og Jónas Sig með tvenn verðlaun
Næsta greinGuðríður sæmd gullmerki UMFÍ