Guðmundur til New York City FC

Mynd/New York City FC

Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Þórarinsson frá Selfossi er nýjasti leikmaður New York City FC í bandarísku atvinnumannadeildinni.

Félagið tilkynnti þetta í kvöld.

Guðmundur, sem er 27 ára gamall miðju- og varnarmaður, kemur til New York frá Norrköping í Svíþjóð þar sem hann hefur leikið frá árinu 2017.

„Þetta er stór ákvörðun á mínum ferli. Ég hef bara heyrt frábæra hluti um félagið og er spenntur fyrir að komast í gang og byrja að spila fótbolta aftur,“ segir Guðmundur í viðtali á heimasíðu félagsins.

Knattspyrnustjóru New York City FC er Norðmaðurinn Ronny Deila, fyrrverandi þjálfari Vålerenga.

„Ég hef séð hvernig Ronny vinnur og hvernig fótbolta hann vill að liðið sitt spili. Það var stór partur af minni ákvörðun. Hann vill halda boltanum mikið innan liðsins og ég elska það,“ segir Guðmundur.

„Mín einbeiting er á því núna að kynnast liðsfélögunum og hjálpa liðinu. Ég er spenntur að þróa minn leik enn frekar og að spila vel fyrir félagið. Ég get ekki beðið eftir því að komast út á völlinn og sýna hæfileika mína sem knattspyrnumaður,“ segir Guðmundur.

Fyrri greinGuðmundur og Þorsteinn léku með U17 í Hvíta-Rússlandi
Næsta greinEinar með sjö mörk í endurkomuleiknum