Guðmundur og Þorsteinn léku með U17 í Hvíta-Rússlandi

Þorsteinn Aron #14 og Guðmundur #7 fyrir sigurleik í riðlakeppninni gegn Ísrael. Ljósmynd: Umf. Selfoss/Tómas Þóroddsson

Selfyssingarnir Guðmundur Tyrfingsson og Þorsteinn Aron Antonsson léku með U17 ára landsliði Íslands í knattspyrnu á æfingamóti UEFA í Hvíta-Rússlandi í síðustu viku.

Ísland tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum í mótinu og hafnaði í neðsta sæti síns riðils, þrátt fyrir sigur í lokaumferð riðlakeppninnar. Í lokaleik mótsins lagði Ísland lið Úsbekistan 2-1 í leik um sjöunda sætið.

Guðmundur var fyrirliði liðsins í fyrstu þremur leikjum mótsins og kom inn á sem varamaður í seinasta leiknum en Þorsteinn kom inn á sem varamaður í fyrsta leiknum og var í byrjunarliðinu í hinum þremur leikjum liðsins.

Selfyssingarnir tveir stóðu sig með prýði en ekki síður öðlast þeir mikla reynslu í svona stóru verkefni.

Fyrri greinHalldór Garðar íþróttamaður Ölfuss 2019
Næsta greinGuðmundur til New York City FC