Guðmundur fann leiðina framhjá rútunni

Guðmundur Tyrfingsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Guðmundur Tyrfingsson var maður leiksins þegar Selfoss vann öruggan sigur á Snæfelli í 1. umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu á JÁVERK-vellinum á Selfossi í kvöld.

Snæfell leikur í 4. deild en Selfoss er eitt af sterkustu liðunum í 2. deildinni og nokkuð líklegt að um einstefnu yrði að ræða. Sú varð líka raunin, Snæfellingar lögðu rútunni fyrir framan vítateig sinn en Guðmundur Tyrfingsson fann að sjálfsögðu leiðina framhjá henni og skoraði fjögur mörk í 5-0 sigri Selfoss.

Selfoss byrjaði leikinn af krafti og hefði getað skorað tvívegis á upphafsmínútunum en ísinn var brotinn á 21. mínútu þegar Guðmundur slapp í gegn og skoraði. Hann var aftur á ferðinni á 45. mínútu og staðan var 2-0 í hálfleik.

Strax á 48. mínútu átti Þormar Elvarsson skot, eða fyrirgjöf frá hægri, af nokkuð löngu færi sem fór í varnarmann Snæfells og inn. Markið sjálfsmark.

Guðmundur var hins vegar ekki hættur hann fiskaði tvær vítaspyrnur á síðustu tíu mínútum leiksins og skoraði sjálfur úr báðum spyrnunum. Lokatölur 5-0.

Selfoss mætir Hvíta riddaranum eða KFS í 2. umferð Mjólkurbikarsins á útivelli næstkomandi föstudag.

Sjö leikir um helgina
Sunnlensku liðin leika öll í bikarnum um helgina. Á laugardag heimsækir Ægir Þrótt Vogum og Hamar heimsækir Kríu á Seltjarnarnes, báðir leikirnir kl. 14:00.  Á sunnudag tekur KFR á móti GG kl. 14:00 og á sama tíma heimsækja Uppsveitir Skautafélag Reykjavíkur. Stokkseyri tekur á móti Afríku kl. 16:00 og kl. 17:00 mætast Árborg og Augnablik. Í Mjólkurbikar kvenna tekur nýtt lið Hamars á móti ÍA á sunnudag kl. 14:00.

Fyrri greinHeklukot fær Grænfánann í fimmta sinn
Næsta greinTveir litlir skjálftar nálægt Hveragerði