Guðmundur bandarískur meistari

Guðmundur Þórarinsson. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Selfyssingurinn Guðmundur Þórarinsson varð í gærkvöldi bandarískur meistari þegar lið hans, New York City sigraði Portland Timbers í úrslitaleik MLS-deildarinnar í knattspyrnu á útivelli í Portland.

New York komst í 1-0 í fyrri hálfleik og allt stefndi í sigur þeirra. Guðmundur var í byrjunarliðinu og var skipt útaf á annarri mínútu uppbótartíma. Það hafði greinilega slæm áhrif á liðið því Portland jafnaði metin tveimur mínútum síðar, á 94. mínútu.

Því var gripið til framlengingar sem var markalaus og þá tók við vítaspyrnukeppni sem lauk með 4-2 sigri New York.

Guðmundur er fyrsti íslenski karlinn til þess að verða bandarískur meistari í knattspyrnu en Dagný Brynjarsdóttir varð fyrsti Íslendingurinn til þess að afreka það, með Portland Thorns árið 2017.

Fyrri greinSelfoss í ham gegn botnliðinu
Næsta grein„Ég hlakka til framtíðarinnar“